Fréttir & greinar

Hvað er/verður tæknistefna island.is?

19.11.2019

Stafrænt Ísland birti drög að tæknistefnu fyrir vefsvæðið island.is fyrir rúmri viku síðan. Því er tilvalið að skrifa nokkur orð um markmið tæknistefnunnar og varpa ljósi á þá vegferð sem við ætlum í, með miðlæga þjónustugátt undir merkjum island.is.

Tæknistefna island.is í samráði

Við fögnum allri umræðu og höfum fengið jákvæð viðbrögð, góðar spurningar og tillögur að viðbótum við stefnuna. Við hvetjum áhugasama sérstaklega til að koma athugasemdum á framfæri í samráðsgáttinni (mikill kostur að heyra bæði hvað er gott og hvað mætti betur fara). Einnig hvetjum við alla áhugasama að fylgjast með vefnum okkar stafrænt.island.is þar sem við munum halda áfram að bæta við efni og gefa frá okkur nýjustu upplýsingar og fréttir.

Stafrænt Ísland og breytt umgjörð

Stafrænt Ísland sem tilheyrir fjármála- og efnahagsráðuneytinu, vinnur meðal annars að því að auka og efla stafræna þjónustu hins opinbera. Teymið samanstendur af 7 starfsmönnum sem sinna breiðu sviði verkefna. Þessi eining er vonandi aðeins upphafið á því að við fylgjum fordæmi annarra landa sem hafa lagt mikla áherslu á stafvæðingu hins opinbera með miðlægri einingu/stofnun og samrekstri tæknilausna (gov.uk, borger.dk og eesti.ee sem dæmi).

Ríkisstjórnin setti fram metnaðarfull markmið um miðlæga þjónustugátt undir merkjum island.is sem Stafrænt Ísland vinnu að hörfum höndum í samvinnu við stofnanir. Miklar framfarir hafa átt sér stað nú þegar en við þurfum að gera enn betur til að fylgja nútímanum og bjóða upp á fyrsta flokks þjónustu. Þar spila núverandi innviðir lykilatriði og það er að okkar mati kominn tími á að breyta umgjörðinni á því hvernig lausnir eru þróaðar til að taka næstu skref og hraða á framförum.

Þrjú stig þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki.

Tæknistefna island.is – eitt skref af mörgum

Tæknistefna island.is er eitt skref af mörgum skrefum sem við ætlum að taka til að umbreyta stafrænu þjónustustigi hins opinbera. Markmiðið er að taka stórt skref frá þeirri umgjörð þar sem birgjar vinna útboð og aðeins einn tiltekinn birgi getur unnið verkefnin næstu árin. Við ætlum að bjóða upp á miðlægt tækniumhverfi undir island.is þar sem margir birgjar/teymi og jafnvel einstaklingar geta lagt af mörkum til þróunar.

Tæknistefna island.is tekur, í dag, ekki á öllum þeim atriðum sem við þurfum að leggja áherslu á í stafrænni þróun. Við trúum að það sé betra að birta slík skjöl fyrr en seinna og halda svo áfram að þróa stefnuna með hjálp almennings. Aðferð sem rímar vel við það að vera „agile“ og notendamiðuð. Á þessum tímapunkti er orðið tæknistefna kannski of stórt orð fyrir skjalið sem býr til væntingar um að skjalið innihaldi allar hliðar þeirrar vegferðar sem við erum í. Vonandi þróast skjalið þó með tímanum yfir í að halda vel utan um allar hliðar á tækniþróun miðlægrar þjónustugáttar undir island.is.

Hlutverk island.is í þjónustu stofnana við einstaklinga og fyrirtæki

Hvað er tæknistefna island.is í dag?

„Tæknistefnan nær til nýþróunar lausna fyrir miðlæga þjónustugátt undir merkjum island.is. Tæknistefna island.is verður í stöðugri þróun og nýjasta útgáfa ávallt birt á vef island.is“

Núverandi drög að tæknistefnu snýr að lausnum inn á vefnum island.is og áhersla var lögð á skilgreina tæknistakk og áherslur við þróun í fyrsta fasa stefnunnar. Við viljum skilgreina það sem til þarf svo margir birgjar geti unnið í sama umhverfi undir merkjum island.is og afurðir þeirra vinnu nýtist vel á milli verkefna. Skjalið er í samráði þar sem margir aðilar (birgjar og stofnanir) munu koma til með að vinna að þessu verkefni og nú þegar hefur það sannað gildi sitt með góðum ábendingum sem munu nýtast.

Áherslur á tæknistakk

Megináhersla í þessum drögum eins og áður segir er á tæknistakk og áherslur fyrir birgja/teymi sem munu vinna að lausnunum. Vinnan framundan heyrir undir opinber innkaup og er útboðskyld. Stafrænt Ísland birtir samkeppnisútboð á næstu dögum sem snýst um að fá inn þverfagleg teymi sem vinna með „agile“ aðferðafræði að þróun þjónusta hins opinbera undir merkjum island.is. Markmið útboðsins er að fá hæf teymi frá mörgum birgjum sem geta unnið með sama tæknistakk í sama kóðasafni. Þar að auki mun samkeppnisútboðið hjálpa stofnunum við innkaupamál þegar kemur að því að stafvæða þjónustu og vinna samhliða áherslum island.is. Stofnanir munu samtímis geta smíðað þjónustur inn á island.is með eigin innviðum séu þeir til staðar á þessu sviði.

Þetta getum við ekki gert án þess að skilgreina tæknistakk sem verður notaður þegar vinnan hefst á nýju ári, en tæknistakkurinn mun vafalaust þróast með tímanum. Við vitum af þeirri staðreynd að tól og tækni breytast með tímanum en einhversstaðar þurfum við að byrja. Við þurfum að hafa þessi mál í sífelldri endurskoðun og breyta áherslum í takt við tímann. Við sjáum aftur á móti augljósa ástæðu til að breyta uppsetningu hvað varðar val á tólum í núverandi drögum með tilliti til athugasemda sem við höfum fengið. Við lögðum áherslu á að velja opin, áreiðanleg, vinsæl og skilvirk tól sem við bindum vonir við að færi okkur fjölbreytt teymi með viðeigandi hæfni til að vinna í sameiginlegum tæknistakk undir island.is á næsta ári.

Við sjáum fyrir okkur að slík teymi taki þátt í að móta framtíðar áherslur um stafræna þjónustu hins opinbera undir island.is með Stafrænu Íslandi og stofnunum. Þar má nefna að við bjóðum út sérstök teymi sem koma til með að vinna að eflingu vefþjónusta (APIs) og opnum gögnum. Einnig bjóðum við út teymi sem kemur til með að útbúa nýjan vef og hönnunarkerfi. Síðast en ekki síst bjóðum við út teymi sem taka að sér að leysa ýmsa ferla ríkisins. Allt verða þetta teymi með þverfaglega þekkingu á stafrænni þróun þar sem notandinn verður alltaf í forgrunni.

Þrjú grunnteymi sem leiða þróun stafrænnar þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki.

Tæknistefna í mótun

Tæknistefna sem þróast

Skjalið er ekki komið til þess að vera óbreytt næstu árin. Þetta verður lifandi skjal og leiðbeinandi fyrir þá sem vinna að þróun þjónustu undir island.is og mun Stafrænt Ísland uppfæra það eftir þörfum.

Nær ekki til annarra vefsíðna eða gagnaumhverfis stofnana

Tæknistefna island.is nær ekki til annarra vefsíðna eða gagnaumhverfis stofnana. Tæknistefnan var unnin með það sjónarmið að geta:

  • Gert stofnunum kleift að smíða þjónustu sína (með innri teymum eða birgjum) í miðlægu tækniumhverfi undir merkjum island.is. Þar sem stofnanir munu koma til með að bjóða þjónustu sína á island.is og Stafrænt Ísland getur stuðlað að samnýtingu lausna.
  • Smíðað samrýndan framenda án þess að setja skorður á hvernig vefþjónustur stofnana eru útfærðar. Gagnaumhverfið og áherslur á vefþjónustur er þó óumdeilanlega grunnurinn að því að við getum boðið fyrsta flokks stafræna þjónustu. Sá hluti verður efldur til muna samhliða þróun á miðlægri þjónustugátt með aðstoð frá Stafrænu Íslandi. Einnig er unnið að verkefni innan Stafræns Íslands sem tekur á tækniarkitektúr ríkisins.

Notendamiðuð hönnun

Tæknistefna island.is tekur ekki utan um öll þau atriði sem snúa að notendamiðaðri hönnun. Hönnunarstefna vefsvæðisins island.is verður unnin í framhaldi í samvinnu við hönnuði, UX sérfræðinga og aðra viðeigandi sérfræðinga. Það má færa rök fyrir því að þetta ætti að vera viðbót við sama skjal. Grunnur að hönnunarkerfi (e. Design System), í samræmi við nýtt vörumerki sem kynnt verður á næstu dögum, er eitt af fyrstu verkefnum teymanna sem munu vinna að miðlægri þjónustugátt.

Eitt af okkar markmiðum er að stafrænir þjónustuferlar hins opinbera séu þróaðir með það að markmiði að bæta þjónustu og notendaupplifun. Stafrænt Ísland hefur meðal annars haldið yfir 75 vinnustofur með stofnunum þeim til stuðnings við endurskoðun og endurhönnun þjónustuferla. Við leggjum ríka áherslu á notendamiðaða nálgun, setjum notandann í fyrsta sætið og ein af meginbreytunum sem skilgreina ávinning verkefna er bætt þjónusta. Við fylgjum fordæmi þeirra landa sem skara fram úr á þessu sviði og höfum grunn af efni tengt þessum málum á stafrænt.island.is sem við leggjum áherslu á að vinna lengra.

Opinn og frjáls hugbúnaður

Ótvíræður kostur tæknistefnunnar og verkefnanna framundan er að við höfum tækifæri á að smíða opinn og frjálsan hugbúnað fyrir hið opinbera með sterkum áherslum. Samhliða stefnunni mun eiga sér stað þróun með þverfaglegum teymum sem vinna eftir þessari stefnu (nýjustu útgáfu hverju sinni). Þetta þýðir einfaldlega að ríkið kemur til með að framfylgja stefnu um opinn hugbúnað sem hefur verið lengi í umræðunni og mikið hefur vantað upp á að sé framfylgt. Með miðlægri þjónustugátt getum við nýtt fjármuni betur og samnýtt þróun og rekstur á milli verkefna. Í nýrri umgjörð munum við standa við það að smíða opin og frjálsan hugbúnað sem mun nýtast öllum.

Við fögnum áfram allri umræðu um tæknistefnuna því með því að hlusta náum við betri árangri. Við vonum að þessi póstur gefi áhugasömum skýrari mynd af tilgangi tæknistefnu island.is og framþróun á næstunni. Þangað til næst!

Stafrænt Ísland

Höfundur greinar

Jónatan Örlygsson Jónatan Örlygsson
Deila þessari síðu

Vertu í bandi!

Tölvupóstur

island@island.is