Fréttir & greinar

Vinnustofa um framtíðarsýn

3.4.2019

Markmið ríkisstjórnarinnar er að setja á fót miðlæga þjónustugátt þar sem landsmenn geta á einum stað nálgast þjónustu hins opinbera og sinnt þeim erindum sem beinast að stjórnvöldum. Í nóvember 2018 var haldin vinnustofa með fjölbreyttum hópi fólks um framtíðarsýn fyrir miðlæga þjónustugátt.

Greining á núverandi stöðu

Frábær vinnustofa!

Í greiningu á núverandi stöðu kom í ljós að fjöldi vefja hins opinbera árið 2017 var um 240 talsins, þ.e. vefir ráðuneyta, ríkisstofnana, sveitarfélaga, Ohf.-fyrirtækja og aðrir opinberir vefir, skv. skýrslunni „Hvað er spunnið í opinbera vefi?“ sem unnin var fyrir Stjórnarráð Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Einnig kom í ljós að 72 stofnanir reka „mínar síður“. Á opinberum vefjum er ógrynni upplýsinga og er framsetning þeirra mismunandi og misauðvelt er fyrir notendur að skilja og nýta sér upplýsingarnar. Umsóknir og þjónustuferlar á vefsíðunum eru sjaldnast á stafrænu formi.

Tækninni fleygir fram og tækninýjungar hafa umbylt hugmyndum og aðferðum við veitingu opinberrar þjónustu. Tækninýjungar eins og gervigreind, vélmenni og nettenging hluta þarf að skoða í tengslum við miðlæga þjónustugátt. Kannanir sýna að almenningur vill geta nálgast þjónustu hins opinbera á netinu, hvar og hvenær sem er. Ísland er í kjörstöðu til að auka framboð sitt á stafrænni þjónustu hins opinbera mjög hratt því að tæknilegir innviðir eru til staðar og Ísland er nú  í öðru sæti í heiminum á eftir Singapúr í internetnotkun og í fyrsta sæti hvað varðar aðgengi að háhraðanettengingu. Ísland er þó ekki enn í fremstu röð þegar kemur að framboði á stafrænum lausnum, en þar eru þjóðir eins og Eistland, Finnland, Danmörk og Bretland, sem við getum lært mikið af.

Vinnustofa Stafræns Íslands

Haldin var vinnustofa með stórum hópi einstaklinga sem velti fyrir sér framtíðarsýn fyrir miðlæga þjónustugátt undir merkjum Ísland.is. Á vinnustofunni voru niðurstöður kynntar úr stefnumótunarvinnu sem átti sér stað fyrir grænbók, stefnumótun í upplýsingamálum, þar sem fjöldi fólks innan hins opinbera tók þátt. Hlustað var á niðurstöður úr notendakönnun þar sem notendur voru spurðir um opinbera þjónustu og miðlæga þjónustugátt. Sérfræðingar deildu þekkingu sinni á ákveðnum tæknilegum lausnum eða útfærslu sem þjónað gæti miðlægri þjónustugátt.

Á vinnustofunni voru meðal annarra sjálfstætt starfandi hönnunarstjóri, formaður stýrihóps um mótun nýsköpunarstefnu fyrir Ísland og yfirmaður vöruþróunar Goggle Assistant, forseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík, deildarstjóri þjónustumiðstöðvar hjá Reykjavíkurborg, kennari og doktor í gervigreind og sérfræðingur í þróunardeild RB. Auk þessara aðila voru stjórnendur og sérfræðingar frá Þjóðskrá Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytinu og aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra.

Niðurstöður um framtíðarsýn

Helstu niðurstöðum vinnustofunnar er hér raðað eftir mikilvægi:

  • Hanna notendamiðað vefviðmót miðlægrar þjónustugáttar þar sem öll þjónusta ríkisins getur verið aðgengileg á einum stað.
  • Leggja áherslu á menningu og breyta hugarfari innan stofnana með það fyrir augum að menning styðji við stafræna umbreytingu þannig að núverandi ferlar og stjórnskipulag stofnana styrki stafræna vegferð hins opinbera. Þetta atriði er mjög mikilvægt til að hægt sé að bjóða upp á hnökralausa þjónustu í miðlægri þjónustugátt.
  • Forgangsraða þjónustu sem snertir marga einstaklinga og skiptir notendur miklu máli. Vinna í fáum verkefnum í einu og þjónusta landsmenn frá upphafi til enda.
  • Vinna að reglugerðarbreytingum og lagasetningu varðandi stafræna þjónustu til að lög og reglugerðir hægi ekki á starfrænni umbreytingu.
  • Stofnanir og sveitarfélög fái stuðning til að vinna að stafrænum umbótaverkefnum og sjái hag sinn í því að vinna saman til að samþætta betur þjónustu ríkis og sveitarfélaga.
  • Ferlar innan stjórnsýslunnar verði endurhannaðir með notendamiðaða þjónstu að leiðarljósi svo að notendur, þ.e. Íslendingar, geti lokið sínum málum er snúa að hinu opinbera hratt og örugglega. Notendur geti nýtt tíma sinn betur og í annað verðmætara en að keyra á milli staða og bíða í röðum.
  • Nýta þarf nútímalega tækni á ígrundaðan og öruggan hátt til að tryggja notendum skilvirkari, öruggari og betri þjónustu.
  • Tryggja þarf netöryggi og öryggi gagna svo að notendur séu varðir fyrir mögulegri misnotkun gagna.
  • Auka verðmæti opinberra gagna með notkun í samræmi við GDPR svo að hægt sé að endurnýta opinberar upplýsingar og deila gögnum með þriðja aðila.
  • Stofnanir og sveitarfélög hætti að senda út bréfpóst og nýti sér pósthólf og sjálfsafgreiðslu í miðlægri þjónustugátt og geti þannig gert stafræn samskipti að meginsamskiptaleið ríkisins við almenning.
Fréttir og greinar

Lestu meira um starfið

Höfundur greinar

Fjóla María Fjóla María
Deila þessari síðu

Vertu í bandi!

Tölvupóstur

stafraentisland@fjr.is