Samvinna

Aðferðafræði við þróun stafrænna lausna

24.4.2019

Aðkoma okkar getur verið margvísleg. Í fyrstu skrefunum getum við aðstoðað við að meta þjónustuna sem á að bæta. Það getur falið í sér að kortleggja þjónustuna eins og hún er, meta ávinning af því að gera hana stafræna og skipuleggja áframhaldandi þróunarvinnu. Í framhaldinu er ákveðið hvernig Stafrænt Ísland getur orðið að liði.  Við getum til að mynda stutt við verkefni, leitt verkefni eða þjálfað starfsfólk.

Á þessari síðu

Markmið

Við vinnum út frá þeirri hugmyndafræði að mesti ávinningurinn felist í lausnum sem miðast við að gera upplifun endanotanda eins góða og mögulegt er. Það felur meðal annars í sér að lausnirnar verði það einfaldar og skýrar að notandinn þurfi ekki að hringja til að afla sér upplýsinga, sem minnkar þar af leiðandi vinnu sem fer í að svara sömu spurningunum aftur og aftur. Þennan ávinning er hægt að sjá endurtekið í gegnum þjónustuferla, til að mynda ef einstaklingur sækir um þjónustu og getur fylgst með stöðu umsóknar þá þarf hann ekki að hafa samband við starfsmenn til að spyrjast fyrir. Auk þessa er hægt að minnka verulega eða losna alfarið við þá vinnu sem fer í yfirferð gagna ef við sækjum gögnin beint á upprunastað í stað þess að senda einstaklinga á milli stofnana til að sækja þau.

Hér fyrir neðan er hægt að sjá það ferli sem við nýtum okkur við hönnun og framleiðslu stafrænna lausna. Þetta ferli byggist á þremur fösum. Við getum komið að verkefni í ákveðnum fösum eða aðstoðað í gengum allt ferlið, eftir þörf og umfangi verkefna.

Nánari upplýsingar um stafrænan stuðning má finna hérna.

Ferlið

Fasi eitt:
Fyrst er unnið að því að skoða og greina stöðuna og meta ávinning af þeim hugmyndum sem hrinda á í framkvæmd. Setja þarf stafræn markmið fyrir vöruna og koma á samvinnu hagsmunaaðila.

Fasi tvö:
Unnið er út frá notendamiðaðri þjónustuhönnun (e. design thinking). Þegar hugmyndin að stafrænni lausn/vöru verður að frumgerð getur eigandi lausnar/vöru fljótt og örugglega og án mikils kostnaðar metið hvort framleiða á lausnina/vöruna. Frumgerð er því næst útfærð af hönnuði á tölvutæku formi.

Fasi þrjú:
Þriðji fasinn kallast framleiðslufasi. Þá er frumgerðin skoðuð með tilliti til framleiðslu lausnarinnar/vörunnar. Þverfaglegt stafrænt teymi er stofnað þar sem tryggt er að framendahönnun sé í samhljómi við bakendaframleiðslu. Framleitt er í samræmi við stafræn viðmið Ísland.is og er lausnin/varan ítrekað endurskoðuð og endurbætt í samræmi við þarfir notenda.

Deila þessari síðu
Var efnið á síðunni hjálplegt?

Vertu í bandi!

Tölvupóstur

stafraentisland@fjr.is