Fréttir & greinar

Útboð – 18 teymi fyrir Stafrænt Ísland

12.12.2019

Sem lið í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar um eflingu stafrænnar þjónustu þá óskar Stafrænt Ísland, fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðuneytisins, eftir þátttöku margvíslegra teyma frá öflugum fyrirtækjum, til að vinna með Stafrænu Íslandi að bættri þjónustu fyrir almenning og fyrirtæki.

Efling þjónustunnar er eitt af forgangsmálum stjórnvalda unnið að því að Ísland verði á meðal þeirra fremstu í heiminum þegar kemur að stafrænni stjórnsýslu og opinberri þjónustu.

Öflug teymi í fyrsta sæti

Teymin munu vinna í samvinnu við verkkaupa að verkefnum fyrir  island.is sem er miðlæg þjónustugátt.  Verkefnin sem um ræðir snúa að þróun á stafrænni þjónustu, sem fellur undir Stafrænt Ísland og island.is.

Markmiðið með útboðinu er að búa til umgjörð þar sem öflug teymi vinna með Stafrænu Íslandi að bættri stafrænni þjónustu hjá hinu opinbera undir merkjum island.is:

  • Við viljum vinna „Agile“ og vitum að öflug teymi og umgjörð skiptir sköpum til að ná árangri hraðar.
  • Útboðið miðar af því að fá fjölbreytt teymi með öfluga reynslu og þekkingu sem vinna eftir og hjálpa að móta tæknistefnu island.is og skýrum sameiginlegum markmiðum.
  • Útboðið felur í sér ríkar hæfis- og gæðakröfur en áhersla er jafnframt á að gera minni aðilum kleift að taka þátt.
  • Afurðir verkefnisins verður frjáls og opinn hugbúnaður (aðgengilegur á GitHub) sem tryggir aðgengi mismunandi teyma að afurðum og styður við nýsköpun.
  • Mat útboðsins byggir á gæðaeinkunn teymis (15%), tímaverði teymis (30%) og lausn notkunardæma og kynningu teyma (55%).
  • Gert er ráð fyrir að heildarumfang verkefna næstu tvö árin geti orðið allt að 60.000 klst. með fyrirvara um fjárveitingar til þessara verkefna.
Teymi koma til með að vinna að heildarlausn sem þjónar þessum áherslum.

Fjölbreytt verkefni

Verkefnin verða fjölbreytt og unnin í samstarfi við stofnanir ríkisins og Stafrænt Ísland. Teymin taka þátt í að leysa verkefnin frá A-Ö í samstarfi við hagsmunaaðila. Því liggur ekki fyrir ítarleg þarfagreining í upphafi verks heldur er litið á teymið sem mikilvægan þátttakanda í að skilgreina verkefnið. Unnið verður eftir skýrum markmiðum sem miða að því að bjóða upp á einfalda, hraða og örugga þjónustu.

Óskað er eftir teymum með mismunandi áherslusvið og þekkingu:

Sjálfsafgreiðsluteymi (4-6 manna teymi): Teymi sem sérhæfir sig í hönnun og forritun ferla/ umsókna. Áhersla er lögð á að teymið geti leyst flókin ferli út frá upplifun notandans og skilað niðurstöðum í bakendakerfi viðkomandi þjónustuaðila / stofnunar.

Vefteymi island.is (4-6 manna teymi): Teymi sem þarf að hafa þekkingu á notendamiðaðri hönnun, notendaupplifun og notendaviðmóti. Mikil áhersla er á heildar viðmótshönnun og framendaforritun á nýjum innri og ytri vef island.is

Vefþjónustuteymi (2-3 manna teymi): Teymi sem skal leggja áherslu á að efla og greina þær vefþjónustur (API‘s) sem unnar eru innan stofnanna og verða notaðar fyrir island.is í gegnum Strauminn (X-Road).

 

Rammasamningur við allt að 18 teymi

Útboðinu er ætlað að skila rammasamningi við allt að 18 teymi (6 af hverri gerð) til að vinna að eflingu stafrænnar þjónustu undir merkjum island.is næstu 2 árin (með mögulegri framlengingu). Teymum verður raðað í röð út frá heildar matseinkunn og fær teymið sem er efst á þeim lista næsta verkefni, það er að segja ef teymið er laust. Eftir hvert verkefni innan samnings eru teymi endurmetinn.

Samningurinn tekur gildi í febrúar 2020. Fyrirtæki geta boðið fleira en eitt teymi af hverri gerð en rammasamningur leyfir þó að hámarki 2 teymi af hverri teymisgerð, frá sama verksala. Teymum í rammasamningi er ekki tryggð þátttaka að verkefnum á samningstíma.

Rammasamningurinn nær til allra A hluta stofnana og ráðuneyta sem geta nýtt sér samninginn í samstarfi við island.is. Því þurfa einstakar stofnanir ekki að fara í sjálfstæð útboð vegna stafvæðingu eigin ferla sem er hagstætt fyrir ríkið í heild. Sömuleiðis er líklegt að þessi nálgun stuðli að samnýtingu verkefna á milli stofnana og ráðuneyta.

Við vonumst svo sannarlega eftir góðri þátttöku frá öflugum teymum og hvetjum alla til að kynna sér málið vel!

Kynningarfundur

Kynningarfundur verður haldinn í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu (1. hæð), Skúlagötu 4, mánudaginn 16. desember 2019 kl. 11:00. Þar verður útboðið kynnt en spurningum verður aðeins svarað rafrænt.

Þeir sem áhuga hafa á að mæta á kynningarfund um útboðsferlið sendi tilkynningu á utbod@rikiskaup.is merkt : 21018 – Þverfaglegt teymi fyrir Stafrænt Ísland, fyrir kl. 9:00 mánudaginn 16. desember 2019.

Þáttaka í útboði

Hér er hægt að nálgast útboðið og skila inn tilboðum um teymi: http://utbodsvefur.is/thverfaglegt-teymi-fyrir-stafraent-island/

Lokaskil á tilboðum er til kl 12:00 15. Janúar 2020. Í kjölfarið fá teymi sem uppfylla hæfniskröfur, notendadæmi og kynna fyrir valnefnd. Gert er ráð fyrir því að samningur taki gildi í febrúar 2020.

Höfundur greinar

Jónatan Örlygsson Jónatan Örlygsson
Deila þessari síðu

Vertu í bandi!

Tölvupóstur

stafraentisland@fjr.is