Verkefnin

Norrænt samstarf

26.3.2019

Á vormánuðum 2017 undirrituðu samstarfsráðherrar Norðurlandanna, auk upplýsingatækniráðherra Eystrasaltsríkjanna, samstarfsyfirlýsinguna Digital North. Samstarfsyfirlýsingin kveður á um að þessi lönd eigi í nánu samstarfi um að stuðla að stafvæðingu svæðisins þannig að hún verði í fremstu röð.

Um MR-DIGITAL

Sett var á fót tímabundin ráðherranefnd um stafvæðingu, MR-DIGITAL, sem starfar til fjögurra ára á tímabillinu 2017–2020.

Helstu áherslumál yfirlýsingarinnar eru:

 1. Efla aðlögunarfærni Norðurlanda og Eystrasaltsríkja á sviði stafvæðingar, meðal annars með því að skapa eitt svæði með stafrænni opinberri þjónustu þvert yfir landamæri.
 2. Auka samkeppnisfærni atvinnulífsins á svæðinu með stafvæðingu.
 3. Starfa saman að því að ná markmiðum stafræns innri markaðar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja um að efla framþróun stafrænnar þjónustu án landamæra.

Ísland gegnir formennskuhlutverki í þessu samstarfi á árinu 2019.

Áherslur Íslands í starfi falla að höfuðáherslum Íslands sem formennskulands í Norrænu ráðherranefndinni.

Formennskuáætlun Íslands byggist á þremur áherslumálum og undir hvert þeirra heyra þrjú verkefni, sem eru þá alls níu, til þriggja ára (2019–2021). Þau eru:

 • Ungt fólk á Norðurlöndunum beinir sjónum sínum að aldamótakynslóðinni sem nú er að hefja vegferð sína út í lífið. Við viljum hlusta á unga fólkið og standa fyrir verkefnum sem efla menntun, menningu og heilbrigði.
 • Sjálfbær ferðamennska í norðri snýst um þær áskoranir sem Norðurlöndin standa frammi fyrir varðandi ferðaþjónustu og miðar að því að skapa jafnvægi milli vaxandi fjölda ferðamanna og verndar viðkvæmrar náttúru landsins.
 • Hafið – Blár vöxtur í norðri fjallar um þær áskoranir og möguleika sem hafið og bláa lífhagkerfið skapa á Norðurlöndum. Hafið tengir löndin og sjálfbær nýting þess er atvinnuskapandi og í heild er það hluti sjálfsmyndar Norðurlandanna.

Af hverju samstarf um stafræna væðingu?

Mótuð hefur verið aðgerðaáætlun sem unnið er eftir og byggist hún á Digital North-yfirlýsingunni.

Helstu áherslumál aðgerðaáætlunarinnar eru:

 • Samstarf um nýtingu gervigreindar.
 • Auðkenning einstaklinga milli landa (eID).
 • Samstarf um samvirkni 5G-fjarskiptainnviða.

Fyrir hverja?

Samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna gagnast bæði borgurum og atvinnulífi þessara landa. Með samstarfinu verður auðveldara fyrir borgara að nálgast opinbera þjónustu innan svæðisins og viðskipti milli fyrirtækja verða snurðulausari. Þá er einnig tryggt að tækni sem nýtt er í einu landi virkar í öðru landi og því verður útbreiðsla stafrænnar opinberrar þjónustu hraðari.

Hvernig mun þetta samstarf birtast borgurum og fyrirtækjum?

Samstarf þjóðanna birtist borgurum á ýmsa vegu. Til dæmis getur einstaklingur með rafæn skilríki auðkennt sig rafrænt gagnvart finnskum yfirvöldum. Einstaklingar geta tekið út lyf í apóteki með rafrænum lyfseðli sem var gefinn út í öðru landi. Með gervigreind verður hægt að byggja upp aukna þekkingu í heilbrigðismálum eins og með greiningu á röntgenmyndum úr gagnagrunnum landanna og þar með verður sjúkdómsgreining nákvæmari og hraðari.

Hvenær kemur samstarfið um Digital North okkur að gagni?

Yfirlýsingin felur í sér að þessar þjóðir verði stafvæddastar á heimsmælikvarða og byggist á þeirri sýn að þær verði virkar í fjórðu iðnbyltingunni og nýti tæknina til að gera líf almennings betra og berjast gegn loftslagsbreytingum, auk þess sem ætlunin er að tryggja að tæknin verði samfélögunum öllum til góðs.

Ef þú ert með einhverjar spurningar, hafðu þá samband við Einar Birki Einarsson, einar.birkir.einarsson(hjá)fjr.is.

Áhersluverkefnin

Gervigreind

Ráðherranefndin MR-DIGITAL undirritaði viljayfirlýsingu um samstarf við nýtingu gervigreindar þar sem lögð er áhersla á:

 • Aukna þekkingaruppbyggingu á gervigreind.
 • Auka aðgengi að gögnum til að bæta opinbera þjónustu með hjálp gervigreindar.
 • Móta viðmið varðandi siðferðisleg álitamál í tengslum við gervigreind.

Rafræn auðkenning (eID)

Unnið hefur verið ötullega að uppbyggingu innviða sem gerir auðkenningu mögulega milli landa svo að hægt sé að nota rafræn skilríki (eID) sem gefin eru út í einu landi til að auðkenna sig í öllum hinum löndunum. Gert er ráð fyrir að þetta verði mögulegt á árinu 2019.

5G

Uppbygging 5G-fjarskiptaneta er hröð um allan heim. Samstarf landanna á þessu sviði snýr meðal annars að hagnýtingu og samvirkni þeirrar þjónustu sem innviðirnir stuðla að.  Forsætisráðherrar Norðurlandanna undirrituðu sameiginlega yfirlýsingu um að Norðurlöndin yrðu  samtengt 5G-svæði.

Aðgerðaáætlun um 5G.

Samstarfsyfirlýsingarnar

Deila þessari síðu
Var efnið á síðunni hjálplegt?

Vertu í bandi!

Tölvupóstur

stafraentisland@fjr.is