Verkefnin

Miðlæg þjónustugátt

27.2.2019

Unnið er að uppbyggingu á miðlægri, stafrænni þjónustugátt undir merkjum Ísland.is. Ný veflausn er í undirbúningi, sem hefur það meginmarkmið að auðvelda samskipti einstaklinga og atvinnulífs við hið opinbera.

 

Um miðlæga þjónustugátt

Í miðlægri þjónustugátt verður hægt að nálgast þjónustu hins opinbera á einfaldan og fljótvirkan hátt. Megintilgangur vefsins er að gera upplýsingar auðlæsilegar, auðfundnar og veita notendavæna stafræna þjónustu með sjálfsafgreiðslu.  Á „mínum síðum“ á island.is munu notendur geta sinnt erindum sínum við ríki og sveitarfélög, fylgst með stöðu sinna mála og nálgast gögn sem hið opinbera geymir um þá á einum stað.

Af hverju miðlæg þjónustugátt?

Þjónustu hins opinbera er að finna á hundruðum vefsíðna hjá stofnunum og sveitarfélögum. Ætlunin er að hafa eina þjónustugátt þar sem hægt er að nálgast alla opinbera þjónustu og spara tíma með því að afgreiða erindi stafrænt. Notendarannsóknir sýna að notendur vilja fyrst og fremst einfalda og skilvirka þjónustu, óháð afgreiðslunni og því hver sinnir henni.

Á sama tíma gefum við stofnunum verkfæri til að sinna þeirri þjónustu sem þeim er ætlað og miðla upplýsingum með skýrum hætti til allra landsmanna á einum stað. Í þessu felst mikil hagkvæmni fyrir ríkið og aukin þægindi fyrir jafnt stofnanir sem notendur.

Fyrir hverja er miðlæg þjónustugátt?

Miðlæg þjónustugátt er fyrir alla notendur opinberrar þjónustu á Íslandi. Vefurinn verður í sífelldri þróun og grunnútgáfa af vefnum mun innihalda margvíslega þjónustu fyrir fjölbreyttan hóp og stóraukið aðgengi að stafrænni sjálfsafgreiðslu.

Þarftu á félagslegri þjónustu að halda? Þarftu að sækja um ökuskírteini eða veitingaleyfi? Ertu að stofna fjölskyldu eða fyrirtæki? Miðlæg, stafræn þjónustugátt verður staðurinn sem þú getur borið upp erindi þín við hið opinbera á einfaldan, skjótvirkan og öruggan hátt.

Hvernig verður hægt að nota miðlæga þjónustugátt?

Á vefnum Ísland.is verður upplýsingagjöf frá hinu opinbera sniðin að notendum. Hægt verður að nálgast upplýsingar og þjónustu frá hinu opinbera í hvaða tæki sem er. Lögð er áhersla á að notandinn finni á einfaldan hátt þá þjónustu sem hann leitar að. Um er að ræða stöðuga þróun þar sem stuðst verður við notendamiðaða hönnun og nýja tækni. Notandinn þarf ekki að margskrá upplýsingar um sig því að upplýsingarnar munu flæða milli þjónustukerfa. Ætlunin er að flytja gögn á milli stofnana, ekki fólk.

Með þínu leyfi getum við sótt upplýsingar um þig til að auðvelda þér lífið og flýtt fyrir afgreiðslu. Á „mínum síðum“ hefur þú stjórn á þínu efni, yfirlit yfir þín mál og aðgang að stafrænum samskiptum við hið opinbera á einum stað.

Hvenær kemst miðlæg þjónustugátt í gagnið?

Miðlæg, stafræn þjónustugátt er langtímaverkefni hins opinbera. Vefurinn er fyrst og fremst þróaður með þarfir notenda í huga þar sem lögð er áhersla á samtal og samvinnu við þá. Stafrænt Ísland hefur fengið til liðs við sig sérfræðinga í tæknimálum, notendamiðaðri hönnun, stafrænni þróun, gagnagrunnum og öryggi til að þróa fyrsta flokks lausn fyrir notendur.

Ný útgáfa af vefnum Ísland.is verður aðgengileg notendum í lok árs 2019. Við höfum háleit markmið og ætlum fyrir árslok 2020 að vera komin með 80% af núverandi stafrænni þjónustu hins opinbera á Ísland.is. Í náinni framtíð getur þú stólað á að þú finnir það sem þú þarft á Ísland.is í tengslum við hið opinbera og treyst því að áframhaldandi þróun mun einfalda þér lífið.  Við stefnum á að bjóða upp á alla stafræna þjónustu frá hinu opinbera á einum stað fyrir árið 2025. Okkar markmið er að þjónustan skari fram úr á heimsmælikvarða – þér, ágæti lesandi, til mikils hægðarauka og ánægju.

Ef þú hefur einhverjar spurningar hafðu þá samband við okkur á stafraentisland@fjr.is.

Deila þessari síðu
Var efnið á síðunni hjálplegt?

Vertu í bandi!

Tölvupóstur

stafraentisland@fjr.is